145. löggjafarþing — 19. fundur,  13. okt. 2015.

dýravelferð.

[14:35]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með málshefjanda um mikilvægi þess að ekki verði veittur afsláttur af velferð dýra. Við líðum það ekki. Slæm meðferð á dýrum hefur verið mikið í umræðunni undanfarið eftir að Matvælastofnun birti myndir úr vettvangsferð þar sem aðbúnaður dýra var vægast sagt óviðunandi. Ekki ætla ég mér að verja slæma meðferð á dýrum en ég set spurningarmerki við þau vinnubrögð að birta nafnlausar myndir án útskýringa. Ég leyfi mér að trúa því að þessir aðilar hafi brugðist skjótt við og hafi nú þegar gert viðunandi ráðstafanir en það kemur hvergi fram. Hafi þeir ekki gert það spyr ég: Hvers vegna hefur Matvælastofnun ekki brugðist við með viðeigandi hætti?

Í 35. gr. dýravelferðarlaga, í X. kafla um stjórnvaldsfyrirmæli og viðurlög, stendur undir yfirskriftinni Stöðvun starfsemi:

„Matvælastofnun er heimilt að takmarka eða stöðva starfsemi þegar um alvarleg tilvik eða ítrekað brot er að ræða eða ef aðilar sinna ekki fyrirmælum innan tilgreinds frests. Við stöðvun starfsemi er heimilt að leita aðstoðar lögreglu.“

Í 45. gr., um refsiábyrgðina, segir:

„Það varðar mann sektum eða fangelsi allt að einu ári ef: […]

b. hann vanrækir umönnunarskyldur skv. 14. gr.“

Lögin eru skýr og því er betri bragur á því að vinna málið í eðlilegum ferlum og stjórnvaldsaðgerðum með bændum en að ráðast á þá í fjölmiðlum. Þau vinnubrögð gera ekkert annað en að leita uppi sökudólga og refsa þeim opinberlega. Er það réttarríkið sem við viljum? Ég trúi því að engum sé eins umhugað og bændum um að dýrum þeirra sem þeir umgangast daglega líði vel því að afkoma þeirra (Forseti hringir.) byggist á að dýrum þeirra líði vel og að þau þrífist vel.