145. löggjafarþing — 19. fundur,  13. okt. 2015.

dýravelferð.

[14:38]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka sérstaklega fyrir þessa umræðu. Hún er afar mikilvæg. Ég held að það sé mikilvægt fyrir okkur að rifja upp anda laganna sem sett voru 2013 því að það dugir ekki bara að lesa upp einstök ákvæði heldur rifja upp til hvers lögin voru sett. Þau snerust nefnilega um velferð dýra og þau snerust um að þar með væri stjórnvöldum úthlutað skýrara hlutverk að því er varðar varðstöðuna um velferð dýranna sem slíkra, sem lífvera sem ættu siðferðilegan rétt á góðri framkomu. Það var andi laganna og markmið laganna. Þess vegna skiptir máli að við séum ekki of föst í því að það sé nánast réttur þeirra sem umgangast dýrin að umgangast þau eins illa og hægt er þar til kemur að einhverjum þvingunarúrræðum. Það getur ekki verið markmiðið.

Ég verð að segja að viðbrögð bæði hæstv. ráðherra hér og sumra talsmanna bænda, sérstaklega svínabænda, hafa valdið mér vonbrigðum af því að þeir tala eins og það þurfi alltaf Matvælastofnun á gluggana til að bændur hafi metnað til að gera vel. Á það ekki að vera metnaður þess sem er í framleiðslu af þessu tagi að gera vel og fara vel með dýr? Er það ekki þannig? Er það ekki þannig að í besta hugsanlega samfélagi þyrftum við ekkert eftirlit með þessu vegna þess að metnaðurinn væri fyrir hendi og viljinn væri fyrir hendi til að gera vel?

Ég legg áherslu á mikilvægi þess að þeir bændur sem fara vel með dýr njóti þess með því að það verði upplýst hverjir búskussarnir eru. Það verður að gera það. Annað er ósanngjarnt gagnvart þeim fjölda sem gerir vel. Auk þess verða upplýsingar (Forseti hringir.) um uppruna og framleiðsluaðferðir að fylgja matvælum. (Forseti hringir.)

Svo vil ég segja alveg í lokin að það er mikilvægt að við styðjum sérstaklega við lífrænan búskap vegna þess að þar er kveðið á um dýravelferð. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)