145. löggjafarþing — 19. fundur,  13. okt. 2015.

dýravelferð.

[14:40]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu, sem er mjög mikilvæg. Ég treysti því að áfram verði fjallað um málið í atvinnuveganefnd. Það sem snýr að okkur er spurningin um hvort eftirlitið virkar. Ég á erfitt með að skilja þegar ég les þessa skýrslu — það er ágætt að hún er gefin út, það er samt erfitt að nálgast hana, hún er vel falin — af hverju verið er að gefa út skýrslu um að eitthvað hafi verið gert. Af hverju var ekki brugðist við þá þegar? Ég átta mig ekki á þessu.

Ég hef verið með eitt þingmál sem ekki hefur verið mikil stemning fyrir. Það snýr að því að eftirlitsskýrslur heilbrigðisfulltrúa séu gerðar opinberar þegar þeir fara í sitt eftirlit á veitingastaði og annað. Við erum að flytja það aftur. Siv Friðleifsdóttir var líka með þetta mál og ég fjallaði um þetta á sínum tíma hjá Neytendasamtökunum.

Þar er um að ræða mjög mikilvægar upplýsingar fyrir neytendur: Eftirlitið hefur verið hér. Það hefur tekið út starfsemina og þetta er niðurstaðan. Ég spyr: Af hverju á það sama ekki við um framleiðendur? Það er farið í eftirlit, búskapurinn er tekinn út, niðurstaðan liggur fyrir og hún er aðgengileg. Eina leiðin til að berjast við svona lagað er gagnsæi. Ég kasta þessu hérna inn og vona að atvinnuveganefnd ræði þetta mál frekar.

Ég er ekki mikið í kjötinu en ég verð að geta treyst því að þegar ég kaupi, hvaða vara sem það er, íslenska framleiðslu þá séum við með heimsklassavöru. Ég held að við ættum ekki að vera hrædd við þessa tollasamninga heldur ættu íslenskir bændur einmitt að sjá tækifæri í því að gera vel, gera betur. Það er misskilningur að neytendur séu bara á höttunum eftir ódýrri vöru. Við gerum lítið úr neytendum með því að tala þannig. Margir neytendur eru tilbúnir að borga hærra verð fyrir góða vöru þar sem er tryggt að dýrunum, ef við erum að tala um dýr, hafi liðið vel.