145. löggjafarþing — 19. fundur,  13. okt. 2015.

dýravelferð.

[14:44]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka fyrir umræðurnar, mér finnst það mjög mikilvægt. Ég vil líka taka undir með þeim þingmönnum sem hafa krafist þess að upplýst verði hverjir fremja dýraníð því að það er nú einmitt þannig að þeir sem koma vel fram við dýrin sín og eru með góð bú liggja undir grun og það er ósanngjarnt gagnvart þeim sem fremja ekki níðið. Meðan svo er ætti allt fólk með einhverja sómatilfinningu og siðferði að sniðganga þessar kjötvörur til að sýna fram á nauðsyn þess að það verði gert eitthvað annað en að harma í hljóði eins og hæstv. ráðherra boðaði.

Ég reyndi allt síðasta kjörtímabil að fá að heimsækja þessar verksmiðjur og fá að taka kjötframleiðendurna tali í verksmiðjunum. Við skulum ekki gleyma því að allir bændur eru ekki eins. Það eru til bændur og það eru til framleiðendur. Það eru til bóndabýli og það eru til verksmiðjur. Margar verksmiðjurnar eru þannig að þingmenn í nefndinni sem fjallaði um nýju lögin fengu ekki að fara í heimsókn. Maður má ekki fara og sjá hvernig aðbúnaðurinn er hjá dýrunum. Það segir mér mjög margt.

Ég skora á þingmenn og almenning að beita því mikla og sterka verkfæri sem við höfum til þess að knýja á um breytingar í þessari grein, þ.e. að sniðganga þær vörur þangað til við fáum að vita hverjir frömdu níðið og eru jafnvel enn að níða og meiða dýr.