145. löggjafarþing — 20. fundur,  14. okt. 2015.

beiðni um sérstaka umræðu.

[15:02]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Við komum hér nokkur upp, hv. þingmenn, í gær og gerðum athugasemdir við þá staðreynd að hæstv. forsætisráðherra hefur í engu sinnt mánuðum saman beiðni hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur um sérstaka umræðu um verðtrygginguna og afnám hennar. Það er síðan ekkert að frétta af því frá yfirstjórn þingsins hvenær megi vænta þessarar umræðu. Mér hafa borist fregnir af því að þetta sinnuleysi sé ekki vegna þess að þingið hafi ekki haldið málinu fram heldur vegna þess að þrátt fyrir að þingið hafi margfarið fram á það við hæstv. forsætisráðherra að umræðan fari fram hafi hæstv. forsætisráðherra ákveðið að þverskallast við skyldum sínum samkvæmt stjórnarskrá og þingsköpum.

Ég vil þess vegna nota þetta tækifæri hér til að upplýsa það að ég mun óska eftir fundi með forseta Alþingis (Forseti hringir.) og skrifstofustjóra Alþingis til að ræða þá alvarlegu stöðu sem Alþingi er komið í vegna þessarar vanrækslu hæstv. forsætisráðherra.