145. löggjafarþing — 20. fundur,  14. okt. 2015.

beiðni um sérstaka umræðu.

[15:03]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera athugasemd sérstaklega við það að hæstv. forsætisráðherra hefur gefið sér opinberlega að sú mjög stutta, málefnalega og nauðsynlega umræða sem átti sér stað í gær undir liðnum um fundarstjórn forseta hafi verið misnotkun á liðnum. Mér þykir mjög leiðinlegt hvernig komið er fyrir hæstv. ríkisstjórn og sumum hv. þingmönnum meiri hlutans að ef hér tjái sig nokkur maður um vinnubrögðin á Alþingi sé það sjálfkrafa misnotkun á liðnum um fundarstjórn forseta. Svo er ekki. Umræðan í gær var nauðsynleg, hún var hófleg, hún var málefnaleg og hún var tímabær. Sömuleiðis þessi hér.