145. löggjafarþing — 20. fundur,  14. okt. 2015.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til þess að eiga orðastað við hv. þm. Brynjar Níelsson sem jafnframt er varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar. Tilefnið er nýlega sett lög um fasteignasala og reglugerð sem búið er að kynna í drögum á vef iðnaðarráðuneytisins. Bæði reglugerðin og lögin hafa það að markmiði að gera frekari kröfur til fasteignasala og auka þar með gæði þeirrar þjónustu sem fasteignasalar veita og efla þannig neytendavernd. Ég tel hins vegar að löggjafanum hafi orðið á í messunni þegar hann setti þessi lög. Ástæðan er sú að einungis þeir sem hafa löggildingu sem fasteignasalar mega nú sinna því verki, en í dag eru 250 sölufulltrúar sem í reynd með setningu nýrrar reglugerðar munu missa vinnuna í einu vetfangi. Þeim berast bréf þessa dagana þar sem verið er að segja þeim upp. Flestir eru upp á hlut sem þýðir að þeir verða að ganga út sama dag. Þetta er þegar hafið.

Vegna þessa eru 250 manns að missa vinnuna. Það sem ég tel að vanti á er að löggjafinn hafi hugsað fyrir því að gefa þessum sölufulltrúum nægilegt tímalegt svigrúm til að afla sér menntunar. Sú menntun er í boði hjá að minnsta kosti tveimur háskólum, felur í sér 90 eininga diplómapróf. 110 manns eru í slíku námi á fyrsta ári, 20 á öðru ári og þeir þurfa að ganga út úr störfum sínum. Að auki eru um 100–150 sem ekki komust inn í það nám af því að þeir höfðu ekki stúdentspróf, þrátt fyrir að lög um háskóla gefi möguleika á því að menn sem eru orðnir 25 ára og hafa starfsreynslu geti gengið til slíks náms.

Ég spyr hv. þingmann og varaformann efnahags- og viðskiptanefndar: Telur hann ekki að sanngjarnt sé að nefndin eða þingið eftir atvikum geri reka að einhvers konar (Forseti hringir.) lagabreytingu sem skapar tímabundinn farveg fyrir þessa (Forseti hringir.) menn og konur sem í dag eru unnvörpum að missa lífsviðurværi sitt, eiginlega án nokkurs fyrirvara?


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna