145. löggjafarþing — 20. fundur,  14. okt. 2015.

störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég held að ég geti alveg tekið undir allt það sem kom fram í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Þótt ég sé fylgjandi því að við aukum neytendavernd og gerum faglegri kröfur almennt er það staðreynd að í þessu tilviki eru þetta um 250 manns sem hafa unnið þessi störf, jafnvel árum og áratugum saman, og ég held að við höfum gengið of langt í þeirri löggjöf sem nýlega hefur verið samþykkt. Ég mun því leggja til að hún verði endurskoðuð í nefndinni með hugsanlega lagabreytingu í huga þannig að við getum tryggt að fólkið geti haldið störfum að einhverju leyti, það sé ekki nákvæmlega það sama og það hefur unnið hingað til, og að það geti sótt nám þótt það hafi ekki stúdentspróf svo að reynsla þess sé metin til jafns á við stúdentspróf og tryggt sé að það hafi möguleika á að afla sér þeirra réttinda sem um ræðir. Ég mun beita mér fyrir því að það verði gert. Ég hef rætt þetta við ráðherrann sjálfan í persónulegu samtali og mér sýnist fljótt á litið að löggjafinn hafi meira að segja gengið aðeins lengra en ráðherra hafði upphaflega gert ráð fyrir í frumvarpinu Við munum því endurskoða þetta til að tryggja að hér verði ekki allt í einu 250 manns án lífsviðurværis. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna