145. löggjafarþing — 20. fundur,  14. okt. 2015.

störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Við höfum verið mjög upptekin af því á undanförnum dögum að tala um dýravelferð og það er mjög gott og mikilvægt. En nú langar mig að tala um velferð barna og ungmenna í þessu landi sem að öllum öðrum ólöstuðum eru sá hópur sem er mikilvægastur af öllum.

Í ljós kemur að 15–20% barna á Íslandi þurfa aukinn stuðning vegna sálrænnar vanlíðunar, svo sem kvíða, depurðar, minnimáttarkenndar, erfiðra heimilisaðstæðna o.s.frv. Af þeim þurfa 5% enn meiri stuðning, þurfa að komast inn á sjúkrahús, inn á BUGL en BUGL sinnir bara 1,5%.

Við stærum okkur af því hér á landi að vera með minnsta ungbarnadauða í heimi sem mælikvarða á það hvað við tryggjum börnunum okkar gott og öruggt líf þegar þau fæðast — en hvað svo þegar þau vaxa úr grasi? Af hverju breytist þetta þegar þau verða eldri? Hvað ef þetta væru berklar til dæmis, þessi andlegu einkenni sem börn sýna? Hvað ef þetta væri líkamlegur sjúkdómur eins og berklar, ef 15–20% barna og ungmenna sýndu einkenni berkla?

Ég vil nota tækifærið til að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að það er að koma ný geðheilbrigðisstefna þar sem allir unglingar í landinu verða skimaðir fyrir þunglyndi og kvíða. Það er mjög mikið framfaraspor.

Mig langar einnig til að hrósa ungmennaráði UNICEF á Íslandi fyrir átakið Heilabrot sem nú stendur yfir í landinu.


Efnisorð er vísa í ræðuna