145. löggjafarþing — 20. fundur,  14. okt. 2015.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Svo sem kunnugt er er að störfum nefnd fulltrúa allra stjórnmálaflokka um endurskoðun tiltekinna þátta stjórnarskrárinnar. Þær fréttir berast að vel gangi í þeirri vinnu og nú hilli undir að tillögur gætu litið dagsins ljós.

Ég vil nota þetta tækifæri hér til að hvetja stjórnmálaflokkana sem eiga fulltrúa í þessari nefnd til að gera allt sem mögulegt er til að reyna að sameinast um tillögur sem geta verið með þeim hætti að við getum öll verið stolt af. Þjóðin er búin að kalla eftir því ítrekað í könnunum og í þjóðaratkvæðagreiðslu að fá til sín vald til að kalla mál til þjóðaratkvæðagreiðslu og stjórnarskrárákvæði um þjóðareign á auðlindum nýtur yfirburðastuðnings meðal þjóðarinnar.

Stjórnmálin á Íslandi hafa verið á sérkennilegum stað frá hruni og tiltrú á Alþingi Íslendinga hefur mælst í sögulegu lágmarki. Leiðin fram á við hlýtur að vera að tengja við almenningsvilja í landinu og að stjórnmálaflokkarnir sameinist um að sýna að þeir geti ráðið við að skila niðurstöðu í samræmi við eindreginn þjóðarvilja og eindregnar réttlætiskröfur þjóðarinnar. Ég ítreka því hvatningarorð til fulltrúa allra flokka sem eiga sæti í þessari nefnd. Við skulum nýta þetta tækifæri núna til að sjá hvort við getum ekki náð saman um ákvæði sem hafa efnislega þýðingu, virða þessa grundvallarkröfu þjóðarinnar. Það geta kannski verið skilaboð frá stjórnmálaflokkunum til þjóðarinnar um að þeir eigi erindi á nýjum tímum.


Efnisorð er vísa í ræðuna