145. löggjafarþing — 20. fundur,  14. okt. 2015.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Ingibjörg Þórðardóttir (Vg):

Herra forseti. Jöfnuður og jafnrétti á að vera grundvallarstef þegar kemur að aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Allir eiga að hafa jafnan aðgang að læknisþjónustu og það á ekki að vera hægt að borga sig fram fyrir röðina. Þannig er málum að jafnaði háttað í samfélagi okkar með þó nokkrum undantekningum en þannig viljum við hafa þetta.

Því miður er ein af þessum undantekningum sem ég ætla að ræða núna tannréttingar. Það er með ólíkindum að ekki skuli vera litið á tannheilsu eins og önnur heilbrigðismál í samfélaginu. Öll börn eiga að hafa jöfn tækifæri þegar kemur að heilsu. Ekki er óalgengt að kostnaðurinn vegna tannréttinga sé um og yfir milljón á barn sem leggst bara á fjölskylduna. Í dag er staðan einfaldlega þannig að fólk sem þarf að senda börn sín í tannréttingar býr oft við verulega skert kjör og þarf jafnvel að taka lán til að standa straum af þessum kostnaði.

Nú er ég ekki að tala um tannréttingar sem fegrunaraðgerðir, ég er að tala um tannréttingar vegna galla sem þarf að laga sem veldur skemmdum og hefur áhrif á heilsu fólks.

Ég get ekki hugsað mér að búa í landi þar sem hinir efnameiri halda fínum tönnum fram á gamals aldur en þeir sem eru með lægri laun búa við skert lífsgæði á sínum efri árum því að ekki voru til peningar í fjölskyldunni til að senda barnið eða unglinginn í tannréttingar.

Ég mæli með því að yfirvöld viðurkenni tannvandamál sem heilbrigðisvandamál og taki þátt í að jafna möguleika fólks til þess að vinna í því.


Efnisorð er vísa í ræðuna