145. löggjafarþing — 20. fundur,  14. okt. 2015.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. 24. september sl. var fundur í atvinnuveganefnd. Þar kom fram mikil gagnrýni á verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar. Á fundinum var boðaður fjöldi fyrirtækja úr orkugeiranum, Landsvirkjun og Orkustofnun og fulltrúar úr ráðuneytinu ásamt formanni verkefnisstjórnar. Mikil gagnrýni kom fram á að verkefnisstjórn ynni ekki innan lögformlegra ferla og safnaði allt of miklum gögnum sem ættu ekki heima í umhverfismati áætlana heldur á síðara stigi í umhverfismati framkvæmda. Ég óskaði eftir því að á fundinn kæmu fulltrúar frá Landvernd, Skipulagsstofnun og náttúruverndarsamtökunum en ekki var orðið við ósk minni fyrr en 6. október í síðustu viku. Það var mjög ánægjulegt að þar var sú gagnrýni að verkefnisstjórn ynni ekki samkvæmt umhverfismati áætlana hrakin lið fyrir lið af Skipulagsstofnun. Skipulagsstofnun hefur eftirlit með umhverfismati áætlana og fram kom að verkefnisstjórn ynni eftir þeim verkferlum sem hún ætti að gera.

Það er mjög ánægjulegt því að það verður að ríkja traust til verkefnisstjórnar og hefur hæstv. umhverfisráðherra lýst yfir trausti á vinnu hennar. Ég ætla að vona að það sem kom fram á hinum síðari fundi um þessi mál 6. október verði til þess að þessi draugagangur vakni ekki upp aftur í atvinnuveganefnd, að trúverðugleiki verkefnisstjórnar verði ekki rýrður og að komið sé heilbrigðisvottorð á störf hennar, sem ég hef auðvitað talið í góðu lagi, svo að hún fái frið til að sinna vinnu sinni og skila niðurstöðu á næsta ári.


Efnisorð er vísa í ræðuna