145. löggjafarþing — 20. fundur,  14. okt. 2015.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

156. mál
[15:48]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa athugasemd og fæ að nota tækifærið til að taka undir það með hv. þingmanni að við höfum skynjað mikinn stuðning og eftirspurn eftir því að innlendir framleiðendur, og ekki hvað síst matvælaframleiðendur, gætu merkt vörur sínar á þennan hátt, þ.e. notað þjóðfánann til að draga það fram að um íslenskar vörur væri að ræða. Við sjáum það reyndar líka að margir erlendir gestir hér á Íslandi og erlendir kaupmenn vilja gjarnan geta merkt íslenskar vörur, matvörur og aðrar íslenskar vörur, á þennan hátt, einfaldlega vegna þess að eftirspurn er eftir íslenskum vörum umfram margt annað. Ísland hefur skapað sér þá ímynd að þær vörur sem hér eru framleiddar, matvara ekki hvað síst, séu í háum gæðaflokki og eftirsóknarverðar og því er það bæði í þágu seljenda og kaupenda að geta merkt vöruna á þennan hátt.