145. löggjafarþing — 20. fundur,  14. okt. 2015.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

156. mál
[15:51]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég styð þetta frumvarp og tel löngu tímabært að frumvarp af þessum toga verði samþykkt. Ég veit ekki hvort það hefur farið fram hjá hæstv. forsætisráðherra í þeim miklu önnum sem á hans þó styrku herðum hvíla að ég hef á umliðnum missirum skrifað nokkrar greinar þar sem ég hef sett fram þá skoðun að markaðssetja þurfi Ísland og íslenskan hreinleika eins og hann birtist í íslenskri framleiðslu, bæði landbúnaðarvörum og sjávarafurðum, en líka þeirri þjónustu og vöru sem felst í því að selja aðgang og upplifun innan lands með samhæfðari hætti. Ég kann ekki íslenska orðið, en leyfi mér að nota, með leyfi forseta, enska orðið „branding“ sem hefur skort á þessu sem einni heild. Ég tel að þetta sé einn liður í því, eða það gæti orðið það. Þess vegna fagna ég þessu.

Ég tel að Ísland hafi mjög margt fram að færa einmitt út frá þeim þáttum sem hæstv. forsætisráðherra nefndi. Ég hef verið þeirrar skoðunar, þótt mörgum finnist það kannski skrýtið, en þó ekki endilega þeim sem eru í flokki með hæstv. forsætisráðherra, að Íslands bíði töluvert gullin framtíð sem framleiðslulands á sviði matvæla, ekki aðeins sjávarafurða heldur líka á sviði landbúnaðar. Mér finnst oft að menn hafi horft fram hjá þeim tækifærum sem þarna liggja. Þau liggja og hvíla öll á hreinleika landsins, þeirri staðreynd að íslensk framleiðsla er nánast mengunarlaus. Hún er af allt öðrum gæðaflokki en samsvarandi erlend vara. Þess vegna finnst mér tilvalið að þjóðfáninn verði notaður sem kjölfesta í slíka markaðssetningu, sem þó er ekki endilega rétta orðið.

Spurning mín til hæstv. forsætisráðherra er þessi: Er gert ráð fyrir því að þjóðfáninn í þessum tilgangi verði notaður með stöðluðum hætti, þ.e. allir noti hið sama (Forseti hringir.) tákn eða útfærslu á honum til þess einmitt að þrýsta heim því tákni sem hann á að vera fyrir íslenska framleiðslu?