145. löggjafarþing — 20. fundur,  14. okt. 2015.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

156. mál
[15:57]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hvatninguna. Það vill svo til að ég mun fljótlega eiga fund með manni sem hafði frumkvæði að því að fá fund til þess að ræða þetta mál. Sá hefur verið að skoða möguleikann á því að koma á slíku samstarfi og átt heilmikil samtöl við aðila í matvælaframleiðslu, ferðaþjónustu og fleiri greinum til þess að kanna hversu mikill grundvöllur væri fyrir slíku. Það verður mjög áhugavert að heyra af því.

Ég hefði nú gjarnan viljað heyra hv. þingmann lýsa því hvernig hann hefði viljað nota íslenska fánann hér í þingsal, bara fyrir forvitnissakir. Já, nú sýnir hv. þingmaður mér það með höndunum hvernig hann hefði viljað hafa þetta. Það er hugsanlegt að það hefði komið ágætlega út. Við getum velt því fyrir okkur, ég og hv. þingmaður, kannski fengið okkur köku einhvern tímann þegar ég fæ aftur leyfi til þess og kaffibolla og spáð í þetta sem og kynningu Íslands og íslenskrar framleiðslu út á við með sameiginlegu vörumerki.