145. löggjafarþing — 20. fundur,  14. okt. 2015.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

156. mál
[16:29]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að þetta frumvarp sé komið hér fram. Ég held að í því felist mörg tækifæri og ég þakka ágæta umræðu um málið. Mér sýnist alveg einboðið þegar kemur að íslenskum landbúnaði að þar liggi alveg gríðarleg tækifæri og tek undir það sem hér hefur komið fram að við leggjum áherslu á hreinleika náttúrunnar og hreinleika íslenskra afurða. Fiskafurðirnar okkar eru þekktar fyrir hreinleika vegna þess hvernig við höfum tekið á öllu framleiðsluferli, hversu vandað það er og vegna þess hversu miklar hreinlætiskröfur og kröfur í framleiðsluferlinu eru gerðar.

Það á líka við um landbúnaðinn og á að vera í öllum greinum þar. En ég vil einnig benda á í þessu sambandi hversu dýrmætt það er að við notum lítinn áburð miðað við margar aðrar þjóðir og lítið af lyfjum í skepnur í framleiðslunni. Ég hef orðið vör við það þegar ég hef farið til Bandaríkjanna að fólk talar um að við neytum kjöts af skepnum sem fóðraðar eru á heyi og grasi. Stór hluti mannkyns neytir aldrei kjöts sem er framleitt við þær aðstæður. Það eru mikil verðmæti sem við eigum hér og við eigum að halda þeim á lofti. Auðvitað þurfum við að stiga varlega til jarðar. Við þurfum að vanda okkur þannig að hér verði til merki og staðlar sem við nýtum sem standa fyrir það sem við viljum vera þekkt fyrir, t.d. hvað varðar hreinleika í framleiðslu og annað slíkt.

Ég fagna því fram komnu frumvarpi og lýsi yfir stuðningi mínum við það. Ég vona að það fari eftir góða umræðu í gegnum þingið og að við náum að afgreiða það eftir margar tilraunir til að koma því hér í gegn.