145. löggjafarþing — 20. fundur,  14. okt. 2015.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

156. mál
[16:31]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég kem upp hér í lokin til þess að þakka þeim sem tóku þátt í umræðunni fyrir ágætar ábendingar sem þar komu fram. Hvað varðar áhyggjur manna til dæmis af því að misnotuð verði ákvæði um að hönnun teljist íslensk jafnvel þótt vara sé framleidd erlendis er mikilvægt að hafa hugfast að í frumvarpinu er sérstaklega vísað til skilgreiningar á hönnun og hönnunarrétti eins og hún kemur fram í lögum nr. 46/2001, um hönnun. Þar segir, með leyfi forseta:

„Hönnunarréttur getur einungis tekið til nýrrar og sérstæðrar hönnunar.“

Svo segir:

„Hönnun telst eins og önnur hönnun ef einstakir þættir hönnunar eru aðeins ólíkir í óverulegum atriðum. Hönnun telst sérstæð ef heildarmynd sú sem hún veitir upplýstum notanda er frábrugðin heildarmynd hans af annarri hönnun sem hefur verið gerð aðgengileg almenningi fyrir umsóknardag …“ o.s.frv.

Það er sem sagt verið að draga það fram að til þess að hlutur geti talist ný hönnun og þar með notið þeirra réttinda sem því fylgir þurfi að vera um að ræða vöru sem er augljóslega töluvert frábrugðin því sem fyrir er. Það breytir því þó ekki að það er sjálfsagt að taka til athugunar þær athugasemdir sem fram hafa komið hér og skoða málið allt gaumgæfilega í störfum nefndarinnar.

Svo tek ég undir þá umræðu sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson stóð að hér og minnti á að mikilvægt væri að við legðum áherslu á það sem við getum kallað ímyndarsköpun til bráðabirgða. Ég skil hvað hv. þingmaður á við þó að við séum kannski ekki alveg komnir með rétta orðið yfir það, en að við vinnum að ímyndarsköpun fyrir Ísland og þær vörur og þá þjónustu sem við seljum og tengjum þá ímynd tilteknu merki.