145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

löggæslumál.

[10:39]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Það er þannig í fjárlagagerðinni núna að búið er að setja fast inn í ramma innanríkisráðuneytisins 0,5 milljarða til viðbótar til löggæslunnar. Vissulega er það árangur. Fjárlagafrumvarpið er náttúrlega í vinnslu á Alþingi og auðvitað er það Alþingi sem ákveður endanlegar fjárveitingar til verkefna og undir því hlutverki mun Alþingi rísa, veit ég.

Varðandi verkfallsrétt lögreglumanna er það mín skoðun að starf lögreglumanna sé með þeim hætti að betra sé að hagur þeirra sé tryggður með samningum en að þeir fái aftur verkfallsrétt. Það þýðir náttúrlega — og ég skal vera sú fyrsta til að viðurkenna og skilja það — að því þarf að mæta í samningum við þá. Ég held að það sé alveg vafalaust að ef menn hafa ekki verkfallsréttinn þarf að mæta því í kjarasamningum. Ég held að afar brýnt sé að það verði gert.