145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

háhraðanettengingar.

[11:05]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Það getur nú verið þannig að jafnvel þótt menn telji að ekkert sé að gerast þá sé ýmislegt að gerast. Hlutirnir þurfa bara að fá að vinnast. Sumir hlutir þurfa bara að gerast á bak við skrifborð og milli manna og síðan kemur afraksturinn og þá er hægt að ræða það. Ég hef ekki mikla trú á því að það sé endilega betra að tala látlaust um það sem verið er að gera meðan það er í þeirri vinnslu sem það er.

Ég ítreka bara það sem ég sagði hér áðan að það er verið að vinna eftir þessari stefnumörkun, sem er þó ekki nema eins árs gömul, eins og hún birtist hér. Það er nú ekki langur tími þótt ég þekki það mætavel á eigin skinni að menn hafa kallað eftir þessu afar lengi.

Þetta er verkefni sem er töluvert metnaðarfullt. Þannig viljum við gera þetta. Ég held að það sé ekki eitthvað sem við þurfum að deila um hér á milli flokka. Þetta er bara eitthvað sem við viljum gera sameiginlega. Við erum að gera það sem við getum til að gera þetta eins vel úr garði og hægt er þannig að þetta þjóni þeim hagsmunum og því sem við ætlum okkur að mæta og líka þannig að það fjármagn sem ríkissjóður setur í þetta nýtist sem best.