145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

málefni fatlaðra.

[11:25]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar fyrst að þakka málshefjanda fyrir að vekja athygli á þessum mjög mikilvæga málaflokki og jafnframt þakka ég fyrir þær umræður sem hér hafa farið fram. Fram kom að fatlað fólk flytji búferlum til að fá betri þjónustu. Það er rosalega sorglega staða að þannig sé komið að fólk þurfi að flytja vegna þess að ekki sé hægt að tryggja grunnþjónustu á því svæði þar sem það vill búa á. Það á jafnvel við innan höfuðborgarsvæðisins að fólk flytji búferlum vegna þess að sú þjónusta sem tryggð er í einu sveitarfélagi er betri en í heimasveitarfélagi þess.

Einnig hafa sveitarfélög verið að íhuga að skila málaflokknum til baka til ríkisins vegna þess að hann þykir vera of mikil fjárhagsleg byrði fyrir þau og þau hafa ekki tekjur til að standa við gefin loforð. Mér finnst sú orðræða svolítið skrýtin hvort ríkið geti gert betur eða hvort sveitarfélagið geti gert betur. Þetta á ekki að snúast um ríki á móti sveitarfélagi. Þetta á að snúast um það hvernig við getum gert hlutina sem best saman og ef það þýðir að við þurfum að hafa sérstakan jöfnunarsjóð til að koma til móts við fjárlítil sveitarfélög, jafnvel fámenn sveitarfélög, þarf bara að stofna hann. Það þarf ekki að vera neitt sérstaklega flókið. Við erum að reyna að tryggja að grundvallarréttindi ákveðins hóps fólks í samfélaginu séu virt og þá gerum við það bara. Þetta þarf ekki að vera eitthvert stríð milli ríkis og sveitarfélags um hver á að gera hvað og hvernig, heldur bara að gera hlutina og gera þá almennilega.