145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

málefni fatlaðra.

[11:31]
Horfa

Hörður Ríkharðsson (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Haraldi Benediktssyni fyrir að hefja þessa umræðu. Ég þakka einnig hæstv. ráðherra fyrir greinargóð og yfirgripsmikil svör. Við erum með til umfjöllunar mál þar sem fólk er almennt sammála og vel með á nótunum og ég tek undir nánast allt sem hér hefur komið fram en ætla aðeins að reyna að tína inn einhverja nýja vinkla í þetta.

Maður hefur verið að horfa á þau þjónustusvæði sem sveitarfélögin hafa sett saman og ég vil velta fyrir mér til að deila því með ykkur hvort það geti virkilega verið þannig að sum þjónustusvæðin séu með miklar tekjur, rík þjónustusvæði með litla þjónustuþörf á meðan önnur svæði eru með minni tekjugrunn til að sinna þjónustunni og þyngri þjónustu. Þá er það spurningin: Er það rétt? Næsta spurning þá: Gætum við þurft að fylgjast með því, gera spá til næstu 10–15 ára um hvernig þetta þróist, að þótt við næðum leiðréttingu núna byrji þetta ekki að gerast aftur? Þurfum við að fikta eitthvað í reiknimódelinu eins og það deilir tekjunum núna? Auðvitað vilja allir að peningarnir fari til þeirra sem þurfa þjónustuna. Það er bara þannig.

Til að varpa frekara ljósi á af hverju þessi þróun hefur átt sér stað þá sé ég ekki betur í gögnum sem við fengum í velferðarnefnd í gærmorgun en að þjónustuþegum með SIS-mat í flokki fjögur hafi fjölgað úr 900 manns í 1.400 á þremur, fjórum árum.

Lög um réttindagæslumenn sem tóku gildi 2012 hafa náttúrlega haft áhrif. Miklu meiri meðvitund er í gangi. Byggingarreglugerð, lög um breytt búsetuúrræði, alls konar slíkir þættir hafa breytt miklu. Ég vil hins vegar skora á alla hér að leggjast á eitt um að tryggja að í þeirri vinnu sem á sér stað núna verði sveitarfélögunum við ákvörðun á útsvarsprósentunni tryggður góður milljarður til að takast á við þetta.