145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

málefni fatlaðra.

[11:36]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar til þess að byrja á því eins og aðrir hér að þakka fyrir þessa umræðu sem ég tel mjög mikilvæga. Ég vil taka undir með síðasta ræðumanni því að mér finnst mikilvægt að þegar við ræðum þetta ímyndum við okkur ekki að flóðgáttir hafi með einhverju móti opnast og sveitarstjórnarmenn hafi farið að dæla peningum í þennan hóp samfélagsins og séu núna að vakna upp við vondan draum með samviskubit. Ég get fullyrt að ekki er verið að ofþjónusta þennan hóp, síður en svo, vegna þess að ég held að það sem við höfum horft á hér áður fyrr hafi víða verið fjölskyldurekin velferðarþjónusta.

Ég tek eftir því að menn vitna í kjördæmaviku og þær upplýsingar sem þeir fengu þar. Ég geti vitnað í mitt kjördæmi sem er í Reykjavík. Þar fengum við þær upplýsingar að uppsafnaður halli frá árinu 2008 í þessum málaflokki er 2,6 milljarðar kr. Það er halli á nánast öllum sviðum sem viðkemur þessari þjónustu. Mér finnst ömurlegt til þess að hugsa ef svo færi að málaflokknum yrði á einhvern hátt skilað því að það eru hræðileg skilaboð til þeirra sem um ræðir. Mér finnst það skipbrot í samskiptum okkar og því verkefni sem okkur er falið sem kjörnir fulltrúar, hvort sem það er hér eða í sveitarstjórnum, að geta ekki leyst úr þessu þannig að vel sé. Þetta er gríðarlega mikilvægt mál og það er ekki að fara neitt.

Ég vil fá skýrari skoðun ráðherra á því sem hún nefndi varðandi endurskoðunina, sem ég skildi þannig að ljóst væri að málaflokkurinn hefði verið vanfjármagnaður og það yrði bætt. Ég mundi gjarnan vilja fá það skýrt fram.

Að síðustu vil ég hvetja okkur hér til þess að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.