145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

málefni fatlaðra.

[11:40]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka sömuleiðis kærlega fyrir þessa umræðu. Hún hefur verið mjög málefnaleg og efnisrík og sýnir held ég áhuga þingmanna á þessu verkefni.

Varðandi nokkur atriði sem var beint til mín og snúa að breytingu á reglum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga þá var lagt upp með að vera með faglegt mat á því hvernig ætti að úthluta fjármununum þannig að menn innleiddu svokallað SIS-mat þar sem var verið að meta þjónustuþörfina hjá þeim einstaklingum sem fengu þjónustu hjá sveitarfélögunum. Það gerði að verkum að sum sveitarfélög sem töldu einmitt á sig hallað á fyrstu tveimur árunum komu betur út í nýju mati meðan á síðustu tveimur árum hefur verulega hallað á önnur sveitarfélög sem höfðu fengið fjármuni sem SIS-matið sýndi síðan að var ekki raunveruleg þörf á. Eitt af því sem við höfum rætt við innanríkisráðherra og þá hjá jöfnunarsjóðnum er að mikilvægt sé kannski að huga að einhverjum breytingum á reglum varðandi úthlutun hjá sjóðnum þannig að meira verði horft til innviða eða aðstæðna á þeim svæðum þar sem er verið að sinna einstaklingum. Þegar langt er á milli einstakra byggðarlaga gæti ákveðinn kostnaður tengst því innan þjónustusvæðisins.

Annað atriði sem ég hef líka tekið upp við sveitarstjórnarmenn eru þjónustusvæðin sjálf. Við höfum séð, eins og ég nefndi í framsögu minni, að lítil sveitarfélög hafa náð að halda mjög vel utan um sinn fjárhagsramma og sinnt sínum verkefnum vel þannig að það virðist ekki endilega alltaf vera samasemmerki á milli stærðarinnar og síðan þjónustunnar sem er verið að sinna. Ég tel mjög mikilvægt að sveitarstjórnarmenn taki utan um þennan málaflokk eins og önnur verkefni sem þau eru með. Þetta fór til sveitarfélaganna, en það er kannski hætta á því þegar sett voru á stofn þessi þjónustusvæði að menn hafi ekki upplifað þetta sem sín verkefni með sama hætti og til dæmis grunnskólarnir voru eða önnur lögbundin verkefni. Það er eitt af því sem við þurfum að huga að.

Tillögurnar sem snúa síðan að húsnæðismálunum sem við erum að vinna að eiga jafn vel um fatlað fólk og aðra. Það verða að sjálfsögðu byggðar (Forseti hringir.) leiguíbúðir fyrir fatlaða einstaklinga. Ég sé ekki að það þurfi að vera nein aðgreining á milli (Forseti hringir.) félagslegra íbúða fyrir fatlaða einstaklinga og ófatlaða einstaklinga, enda væri það alls ekki í samræmi við þær áherslur sem hafa komið fram í þessari umræðu.