145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

atvinnumál sextugra og eldri.

[11:57]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka kærlega fyrir þessa mikilvægu umræðu. Ég vil taka upp þráðinn hjá hv. þingmanni sem talaði hérna áður því að það er mjög mikilvægt að við ræðum svona mál alltaf dálítið heildstætt. Við höfum tilhneigingu til þess þegar kemur að velferðarmálunum að ræða einstakar breytingar eða einstök frumvörp og einblína á mjög sérstök atriði sem eru hluti af stærri heild og kannski orðin mjög tæknileg.

Atvinnuþátttaka aldraðra er hluti af atvinnuþátttöku, af atvinnulífinu. Það er mikilvægt að við tölum ekki um atvinnuþátttöku aldraðra án þess að taka tillit til atvinnulífsins alls. Hluti af því að hafa mjög sterka atvinnuþátttöku þeirra sem eldri eru er að það minnkar að einhverju leyti hreyfinguna og möguleikann á nýgengi. Eins og tölurnar sýna núna er því miður talsvert erfiðara um atvinnu hjá yngstu aldurshópunum. Þar erum við farin að banka upp á svipað „trend“ og við höfum séð hjá Evrópuþjóðum þar sem aldurshópurinn 18–25 býr við helmingi meira atvinnuleysi en aðrir. Ég vildi benda á þetta vegna þess að ég held að lausnin í báðar áttir sé ekki endilega að festa atvinnuþátttöku aldraðra við ákveðið ár og segja fram til sjötugs eða hvað, heldur akkúrat að auka sveigjanleika þannig að aldraðir geti tekið þátt í atvinnulífinu en ekkert endilega í fullu starfi, ekkert endilega í hálfu starfi, þess vegna í 15% starfi og ekkert endilega bara til sjötugs heldur kannski til 77 ára aldurs.

Ég held að við höfum öðlast meiri og betri getu til þess að einstaklingsmiða hluti og réttindi. Við eigum endilega að horfa í þá áttina. (Forseti hringir.) Kannski getum við notað kerfi eins og tryggingagjaldið, sem við notum til að stýra atvinnumarkaði, eins og í gegnum Fæðingarorlofssjóð og VIRK, (Forseti hringir.) í þessum tilgangi.