145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

atvinnumál sextugra og eldri.

[12:01]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á að þakka fyrir umræðuna og hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessu mjög svo mikilvæga og áhugaverða máli.

Mér finnst oft mjög sorglegt að sjá hvernig komið er fram við eldra fólk. Því virðist stundum vera sagt upp af því að það er komið nálægt eftirlaunaaldri. Því er ekki einu sinni sýnd sú lágmarkskurteisi að bíða í tvö, þrjú ár eftir því að það komist á eftirlaunaaldur, eins og gerðist t.d. með hv. skúringarkonur í Stjórnarráðinu hérna um árið. Þeim var sagt upp þrátt fyrir að þær ættu bara nokkur ár eftir í eftirlaunaaldur. Annars staðar, í hinum siðmenntaða heimi í Evrópu, er einfaldlega beðið eftir slíku. Ef það eru þrjú, fimm, sex ár í að viðkomandi komist á eftirlaun er fólki sýnd sú kurteisi að fá að halda áfram að vinna fram að því. Það virðist ekki vera við lýði hér.

Ég held að þetta sé fyrst og fremst spurning um viðhorf. Það er líka annað sem maður sér þegar maður ferðast um Evrópulönd svo sem Þýskaland og Frakkland, að þar er hátt hlutfall eldra fólks í þjónustustörfum, á kassa í verslunum og því um líkt. Hér virðist þetta vera unglingastarf. Það er kannski fyrst og fremst vegna þess að unglingar sætta sig við lægri laun og þurfa heldur ekki að framfleyta heilli fjölskyldu.

Þetta er bara spurning um hvernig vinnumarkaðurinn á Íslandi er. Af hverju erum við komin á það stig að ráða frekar unglinga í vinnu? Það er auðvitað bara gott og blessað, en þetta er vinna. Mér finnst alla vega að svona vinna eigi fyrst og fremst að vera fyrir fólk sem þarf að framfleyta sér. Þótt unglingar þurfi vissulega stundum að taka þátt á vinnumarkaðnum er þetta spurning um forgangsröðun og virðingu við fólk sem þarf á vinnunni að halda.