145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

atvinnumál sextugra og eldri.

[12:06]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ernu Indriðadóttur fyrir að bera þetta mál hingað inn. Undanfarin ár hefur einn stærsti hópurinn sem hefur verið langtímaatvinnulaus, eins og rétt kom fram hjá hv. þingmanni, verið 55 ára og eldri. Sá sem hér stendur er á móti sóun í hverri mynd sem hún birtist. Ég lít þannig á að með því að við viðhöldum nokkurri æskudýrkun erum við að kasta á glæ reynslu og þekkingu sem fólk hefur safnað sér upp í áranna rás. Ég tel reyndar að á þeim hópi sem nú gengur atvinnulaus, sérstaklega þeim sem er langtímaatvinnulaus, þurfi frekari greiningu, t.d. á menntunarstigi o.s.frv., til að hægt sé að grípa til sérstakra ráðstafana hvað þetta varðar.

Ég tel reyndar að í þessu máli sé sérstaks átaks þörf og tel að slíkt átak eigi að vera leitt af ríkinu, ríkisstofnunum og sveitarfélögum. Ég segi aftur að við höfum ekki efni á því að kasta á glæ þekkingu þeirrar kynslóðar. Fyrir utan það náttúrlega, eins og fram hefur komið hér, að þetta er samviskusamt fólk upp til hópa og vel fært.

Annað er hitt að við þurfum að sjálfsögðu líka að gæta að meiri endurmenntun fyrir þann hóp. Rétt er að taka fram að nú þegar rætt er um í nefnd á vegum félags- og húsnæðismálaráðherra hækkun ellilífeyrisaldurs hafa þær hugmyndir einnig verið á kreiki að ellilífeyrisaldur geti farið allt upp í 75 ár en hann verði jafnframt sveigjanlegur þannig að hugsanlega geti menn farið á eftirlaun 65 ára (Forseti hringir.) en þá með ögn skertum réttindum. Allt þetta þurfum við að taka til athugunar vegna þess að þessi hópur er allt of mikilvægur og verðmætur fyrir okkur til að geta verið án krafta hans.