145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

um fundarstjórn.

[12:21]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þann 24. janúar birtist eftirfarandi á vef Stjórnarráðsins, með leyfi forseta:

„Heilbrigðisráðherra hefur samþykkt stefnu í áfengis- og vímuvörnum til ársins 2020. Á grundvelli hennar verða skilgreind mælanleg markmið og sett fram áætlun um aðgerðir til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt.“

Síðan eru tilgreind yfirmarkmið stjórnvalda í áfengis- og vímuvörnum til ársins 2020:

Að takmarka aðgengi að áfengi og öðrum vímugjöfum.

Að vernda viðkvæma hópa fyrir skaðlegum áhrifum áfengis og annarra vímugjafa.

Hæstv. forseti. Er til of mikils mælst að ætlast til þess að hæstv. heilbrigðisráðherra verði viðstaddur þessa umræðu eins og margoft hefur verið óskað eftir? Það var gert í síðustu viku þegar þetta þingmál var til umfjöllunar, hann er ekki á staðnum og ég krefst þess að þessi umræða hefjist ekki nema að viðstöddum hæstv. heilbrigðisráðherra í salnum.