145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

um fundarstjórn.

[12:32]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur óskað eftir nærveru hæstv. heilbrigðisráðherra. Hæstv. forseti hefur upplýst að boð hafi verið send til ráðherrans og jafnframt hefur hann síðar staðfest að ráðherrann hafi fengið boðin. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. forseta hvort hann hafi með þeim boðum líka fengið upplýsingar um hvort hæstv. heilbrigðisráðherra hyggst verða við þessum óskum.

Ég tel að hv. þm. Vilhjálmur Árnason hafi fullan rétt til þess að leggja fram þau mál sem hann telur brýnust hverju sinni. Ég hef ekkert á móti því að ræða þetta mál. Hins vegar tel ég mikilvægt að hæstv. heilbrigðisráðherra komi hér og skýri ákveðin sjónarmið sem hann hefur í málinu. 24. janúar í fyrra gaf hann út áfengis- og vímuvarnastefnu. Markmið númer eitt er að takmarka aðgengi að áfengi. Við þurfum þess vegna að heyra það hjá hæstv. ráðherra hvort það markmið samrýmist þessu frumvarpi vegna þess að sú afstaða hlýtur að vera mikilvægt innlegg í málið.