145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

um fundarstjórn.

[12:36]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Þótt fram hafi komið hjá hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni að hæstv. heilbrigðisráðherra hafi setið drjúga stund undir umræðunni í fyrra minnist ég þess ekki að hæstv. ráðherra hafi nokkru sinni gefið upp skoðun á því hvernig þetta frumvarp samrýmist hans eigin áfengis- og vímuvarnastefnu. Það er mikilvægt fyrir okkur að sá sem er æðstur framkvæmdarvaldsins á þessu sviði gefi okkur það álit sem hann hefur væntanlega og byggir á áliti sinna sérfræðinga. Það er gagn í málinu.

Ég á erfitt með að trúa því að hæstv. heilbrigðisráðherra, sem er kjarkmenni eins og hann hefur oft sýnt, skuli vera á flótta undan því að gefa upp afstöðu sína. Það er skylda hans að veita forustu í öllum þeim málum sem varða heilbrigðismál landsmönnum til heilla. Nú liggur fyrir opinber stefna frá honum um að takmarka eigi aðgengi að áfengi og við þurfum þess vegna að fá að vita afstöðu hæstv. ráðherra. Það er erfitt að halda þessari umræðu áfram nema vita (Forseti hringir.) hana til þess að hægt sé að taka málefnalega afstöðu til málsins sem hv. þm. Vilhjálmur Árnason hefur flutt, (Forseti hringir.) hvort frumvarp þingmannsins samrýmist hinni opinberu stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum efnum.