145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[12:41]
Horfa

Ingibjörg Þórðardóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Nú ætlum við að ræða þetta mál um brennivín í búðir, eins og það hefur verið kallað. Ég tek undir það sem sagt var áðan að við söknum ráðherra mjög. (Gripið fram í.) Í greinargerðinni með frumvarpinu er sagt að einkaaðilum virðist almennt vera betur treystandi til að framfylgja reglum um lágmarksaldur, til að kaupa tóbak og að heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna eigi að sjá um eftirlitið. Það stendur einfaldlega að þeim sé treystandi. Ég ætla, með leyfi forseta, að fá að lesa upp úr greinargerðinni:

„Í þessu samhengi er rétt að benda á að einkaaðilum virðist almennt treyst til að framfylgja reglum um lágmarksaldur til að kaupa tóbak. Þá er einkaaðilum treyst til að framfylgja reglum um afhendingu eiturefna, skotvopna og skotfæra. Þó svo að hægt sé að misnota áfengi virðast eiginleikar þess nokkuð léttvægir í samanburði við eiginleika tóbaks og hvað þá eiturefna, skotvopna og skotfæra. Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna fara með eftirlit með því að tóbakskaupaaldur sé virtur. Þá fer lögreglan með eftirlit með því að aldurstakmark við veitingu áfengis á veitingahúsum séu virt. Það eftirlit hefur ekki sætt mikilli gagnrýni enn sem komið er.“

Þetta er ekki rökstutt með neinum hætti. Ekki hafa verið gerðar rannsóknir á því hvort einkaaðilum sé treystandi, því er bara skellt fram að það sé almennt talið en ekki er bent á neinar kannanir sem styðja þá fullyrðingu. Mig grunar líka að heilbrigðiseftirlitið víða um land hafi í raun mjög takmarkað fjármagn til að sinna þessu eftirlitshlutverki sem sagt er í frumvarpinu að sé svo sjálfsagt að það sinni. Það væri áhugavert að sjá það svart á hvítu hvernig þetta eftirlit er og hvort það er nægilega mikið.

Í kjörbúðum og stórmörkuðum í dag vinnur fólk sem er undir 18 ára aldri. Ef fólk kaupir tóbak í verslun þar sem afgreiðslumaður er undir 18 ára aldri á að vera einhver regla um að þá komi annar starfsmaður og rétti fram tóbakspakkann. Það gerir hann auðvitað fyrir framan augun á ungmenninu sem er afgreiða. Ég leyfi mér að efast um að þetta sé alls staðar alltaf fullkomið. Ég man eftir könnun, ég er því miður ekki með hana hér við höndina, sem framhaldsskólanemar gerðu einhvern tímann á eftirlitinu, þeir prófuðu að fara í verslanir og kaupa tóbak. Það gekk í mjög mörgum tilfellum ljómandi vel þannig að ég set spurningarmerki við það sem sagt er í greinargerðinni með frumvarpinu, að eftirlitið sé mjög gott og að fólki sé treystandi fyrir þessu. Það hefur síðan verið prófað í vínbúðunum en þar er eftirlitið tekið miklu fastari tökum en almennt í kjörbúðum og stórmörkuðum.

Svo koma alls konar þættir inn í þetta. Á litlum stöðum úti á landi og kannski líka hérna á höfuðborgarsvæðinu afgreiða þessir krakkar vini sina. Við vitum að ungmenni verða fyrir alls konar hópþrýstingi og sjálfsmyndin er ekki alveg 100% hjá öllum, margir eiga kannski erfitt með að standa þar í lappirnar og segja nei þegar besti vinurinn eða besta vinkonan þrýstir á þá, þannig að ég er ekki alveg viss um að það haldi sem stendur í greinargerðinni.

Í greinargerðinni er einnig fjallað um hvort eðlilegt sé að ríkisstofnun sem fer með einkaleyfi til smásölu gegni því hlutverki að hlúa að tiltekinni neyslumenningu. Á bls. 8 segir, með leyfi forseta:

„Eðlilegt er spyrja hvort eðlilegt sé að það sé eitt meginhlutverka ríkisstofnunar sem fer með einkaleyfi til smásölu áfengis að hlúa að tiltekinni neyslumenningu með ærnum tilkostnaði. Væri ekki eðlilegra að slíkt starf væri í annarra höndum?“

Neyslumenning vímugjafa, það er varla hægt að bera slíkt saman við neysluvenjur í tengslum við aðrar vörur. Ég óttast að ákveðnir hópar samfélagsins verði hér út undan. Líklega munu ákveðnar tegundir áfengis lækka í verði en aðrar hækka og líklegt að fáar, ódýrar bjórtegundir og léttvínstegundir verði í boði hjá stórmörkuðunum en dýrar tegundir verði aðeins seldar í sérverslunum. Tekjulægri hópar munu þá drekka stórmarkaðsvín og hinir ríkari munu geta farið í fínu vínin og belgíska bjórinn. Það er spurning hvort við viljum fara í þá átt.

Í umræðu um málið hefur margsinnis verið bent á lýðheilsurökin og þau eru klárlega sterkustu rökin. Þrátt fyrir að hægt sé að ræða það og benda á ýmis önnur rök eru lýðheilsurökin klárlega þau allra sterkustu. Fjölmargir umsagnaraðilar hafa varað við þróuninni og frumvarpinu sjálfu.

Okkur þingmönnum barst áskorun þar sem 23 aðildarsamtök skora á þingmenn að samþykkja ekki þetta frumvarp. Það er sérstaklega ein grein sem er mjög áhugaverð. Ég ætla að lesa hana, með leyfi forseta:

„Áfengisneysla er meðal sterkustu áhættuþátta lýðheilsu, samanber mat Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Kostnaður samfélagsins vegna neyslu áfengis birtist víða, m.a. í heilbrigðiskerfinu, löggæslu- og dómskerfinu, tryggingakerfinu og atvinnulífinu svo dæmi séu nefnd. Að ógleymdum áhrifum á einstaklinga, fjölskyldur og nærsamfélag.“

Það er mjög margt sem getur fylgt og við vitum það, allar kannanir segja okkur að neysla áfengis eigi eftir að aukast. Hvað fylgir aukinni neyslu áfengis? Við vitum það að aukinni neyslu áfengis fylgir t.d. ofbeldi. Erum við tilbúin til að setja það á vogaskálar? Hversu mikið má ofbeldið aukast? Erum við með einhvern mælikvarða á það? Ofbeldi má aukast eitthvað ákveðið mikið til að það sé ásættanlegt. Ég er afar ósátt við þetta og held að þetta sé stórhættulegt.

Svo er það auðvitað unglingadrykkjan. Maður veltir fyrir sér: Eigum við ekki að hætta að ræða þetta og fara að ræða um hvernig við getum eflt forvarnir? Eigum við ekki að ræða það hvernig við getum stutt við fólk með fíknivanda? Erum við ekki með kúrsinn á einhverjum kolvitlausum stað núna með þessari umræðu þegar við ættum kannski að ræða um mál sem eru alvöruvandamál? Ég sé ekki vandamál við það að fara í vínbúðir ríkisins og kaupa sér vín. Við höfum hér risavandamál en við ætlum ekkert að vera að hugsa um þau heldur ætlum við að fara að gera áfengissölu að vandamáli sem er það ekki fyrir.

Ég sagði áðan að lýðheilsurökin væru klárlega sterkustu rökin gegn þessu frumvarpi en svo eru líka neytendarök og þau eru líka goð og gild því að ég nota sjálf áfengi og hef meira að segja töluverðan áhuga á áfengi. Ég hef áhuga á góðum vínum og kannski sérstaklega góðum bjór. Þetta er lögleg vara og þeir sem kunna með hana að fara eiga að geta neytt hennar.

Ég bý í Neskaupstað sem er langt frá höfuðborgarsvæðinu, og hvað mun gerast þar og á öðrum stöðum á landsbyggðinni? Ég sé ekki fyrir mér að það sé markaður fyrir gourmet-vínbúð í mínu 1.500 manna sjávarþorpi, ég sé það ekki alveg fyrir mér. En þrátt fyrir að úrvalið í vínbúðunum á smærri stöðunum á landinu sé kannski ekki það sama og í stóru vínbúðunum hér á höfuðborgarsvæðinu þá er boðið upp á algerlega frábæra þjónustu. Ég get bara farið og hitt hann Þorlák, útibússtjórann í vínbúðinni í Neskaupstað, og sagt: Mig langar svo að prófa þennan bjór sem ég fann á heimasíðu vínbúðarinnar. Ég get séð hvað þar er í boði og beðið útibússtjórann um að panta fyrir mig. Hann gerir það, það gerist hratt og ég borga ekki fyrir flutningskostnaðinn. Ég sé ekki alveg að það verði uppi á teningnum hjá Samkaupum, í kjörbúðinni í mínum heimabæ, og ég held að þetta eigi eftir að hafa áhrif á vínmenningu úti á landi. Ég er ekki að segja að það séu einhver mannréttindi að ég hafi greitt aðgengi að víni, alls ekki. En við viljum kannski að menningin í kringum vínið sé með þeim hætti að við höfum um eitthvað að velja og getum umgengist vöruna á þann hátt sem flestir vilja og í þá átt sem málin hafa verið að þróast.

Vínmenningin á Íslandi hefur verið að þróast til betri vegar. Frumvarpið rekur hina tekjulægri og íbúa landsbyggðarinnar úr bættri vínmenningu, kannski rekur það hina tekjulægri og landsbyggðarfólkið til baka í vínmenningu sem við erum ekkert sérstaklega hrifin af.