145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[13:00]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Kannski hef ég bara misst af einhverju í þessu öllu saman, ég man ekki til þess og þekki ekki til þess að ÁTVR taki með beinum hætti þátt í forvarnastarfi. Ég veit ekki til þess að börn fari í ÁTVR eða ÁTVR komi til barnanna. Forvarnir eiga sér stað í skólunum. Þær eiga sér líka stað í miklu víðara samhengi. Það er líka spurning um að draga foreldrana að borðinu og slíkt. Þannig virkar forvarnastarf eftir minni bestu vitund og ég sé ekki hlutverk ÁTVR í því starfi, ég verð að segja eins og er.

Þegar kemur að fjármögnun forvarnastarfs þá held ég ekki að tilvist ÁTVR sé nein nauðsynleg forsenda fyrir því. Þetta snýst um peninga og það að ríkið fái sem mest fyrir það að selja dóp sem áfengi er, áfengi er dóp og ekkert annað. En þá langar mig að spyrja hv. þingmann, vegna þess að hún fór út í menninguna, ekki sé hægt að bera saman neyslumenningu á áfengi og öðrum vörum. Gott og vel, berum það saman við áfengismenninguna fyrir til dæmis lögleiðingu bjórsins. Enginn vill fara aftur í bann bjórsins. Hvers vegna ekki?