145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[13:09]
Horfa

Ingibjörg Þórðardóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að taka undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, ég hef áhyggjur af þessu og ég er sannfærð um að ef einkaaðilar fá þetta leyfi, og ríkið hættir að selja áfengi, þá munu markaðssjónarmið verða ráðandi. Ég er sannfærð um að í litlum þorpum — ég er ekki sérstaklega að hugsa um Neskaupstað, það vill bara þannig til að ég bý þar en ég veit að það er áhugafólk um vín í öllum þorpum landsins — minnkar úrvalið. Það gerir það klárlega. Okkur verður boðið upp á einhvern bónusbjór og ódýr kassavín, finnst mér einhvern veginn, bara beina leið.