145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[13:48]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður hvatti til málefnalegrar umræðu um það frumvarp sem hér liggur fyrir. Vissulega tókst honum vel upp að vera málefnalegur í sínu máli. Þó fannst mér skorta upp á það að hv. þingmaður, þegar hann reyndi að bregða upp þeirri mynd að hann væri að ræða þetta yfirvegað frá ýmsum hliðum, teldi nokkuð fram sem hugsanlega gæti fallið með þeim sem eru á móti því frumvarpi sem hér um ræðir.

Mín spurning til hv. þingmanns er þessi: Er hann einfaldlega á móti þeirri stefnu sem er yfirlýst stefna hæstv. heilbrigðisráðherra um áfengis- og vímuvarnir þar sem segir í fyrsta markmiði stefnunnar að takmarka eigi aðgengi að áfengi og öðrum vímugjöfum? Hv. þingmaður verður eiginlega að segja okkur hvort hann sé þeirrar skoðunar að þetta markmið sé rangt. Svo sagði hv. þingmaður að það hefði bara ekkert komið fram sem benti til þess — hann sagði að vísu kollsteypa, ég hef aldrei tekið mér það orð í munn — að málstaður þeirra sem eru á móti þessu frumvarpi væri réttur. Það er ekki rétt hjá hv. þingmanni og það kom fram í máli hans. Eitt af því sem hv. þingmaður sagði, hafi ég tekið rétt eftir, er að menn yrðu, og hann orðaði það svo, með öllum tiltækum ráðum að draga úr skaðsemi sem stafar af áfengi. Hann nefndi nokkur ráð til þess en eitt af þeim ráðum hlýtur að vera að takmarka aðgengi. Er það þá ekki þannig að ef við eigum að beita öllum tiltækum ráðum þá verðum við að fara þessa leið líka ásamt hinum sem hv. þingmaður nefndi ef hann vill vera sjálfum (Forseti hringir.) sér samkvæmur sem að ég efast náttúrulega ekki um í tilviki slíks heiðursmanns?