145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[13:52]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður nefndi Bretland, það er nú ekki saman að jafna Bretlandi og Íslandi. Sé áfengisneysla úr hófi fram böl á Íslandi þá er hún sannkallað þjóðarböl í Bretlandi. Þar hafa menn að illri nauðsyn neyðst til þess að skera upp herör gegn óhóflegri drykkju. Hvað veldur henni? Það er aðgengi og aukið aðgengi að áfengi í Bretlandi, ekkert annað, fyrst og fremst.

Ég er ósammála ýmsu sem hv. þingmaður sagði. Ég er til dæmis alveg ósammála því að það hafi verið aðalatriðið í ræðu hans að fara að sjónarmiðum lýðheilsu. Mér fannst ræða hv. þingmanns snúast fyrst og fremst um að það væri hægt að spara peninga, 3 milljarða, með því leggja niður ÁTVR. Hvert fara þeir peningar, hv. þingmaður? Fara þeir kannski í samkeppni sem eykst og leiðir í kjölfarið til þess að áfengi lækkar í verði? Ég er yfirleitt þeirrar skoðunar að það beri að gera allt sem hægt er til þess að lækka vörur sem almenningur kaupir, en ég geri undantekningu með áfengi. Ég gæti líka gert undantekningu með sykur eins og ég burðaðist við hér fyrr á árum. Mér finnst ræða hv. þingmanns í allt of ríkum mæli ganga út á sparnaðarsjónarmið. Ég tel líka að breytt fyrirkomulag skaði eða dragi úr úrvali þeirra sem vilja njóta víns í hófi og góðra vína og geta leitað til kunnáttumanna. Þetta er mín skoðun. Hv. þingmaður getur leyft sér að rökstyðja annað.

Eftir sem áður þá er punctum saliens í þessu að hv. þingmaður sagði að það ætti að beita öllum tiltækum ráðum til þess að draga úr skaða vegna áfengisneyslu. Nú kemur í ljós að hann telur sig líka hafa talið upp að eitt ráðið til þess sé að takmarka aðgengi að áfengi. (Forseti hringir.) Mér heyrðist hann staðfesta það hér áðan. Miðað við þetta, ef hv. þingmaður (Forseti hringir.) vill nú hugsa lógíst og vera sjálfum sér samkvæmur, hvernig í ósköpunum (Forseti hringir.) hafandi sagt þetta getur hann þá stutt frumvarpið?