145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[13:57]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir ræðu hans. Ýmislegt alveg ágætt kom fram í henni þótt ég sé í aðalatriðum málsins ósammála hv. þingmanni, þar sem ég er því gríðarlega mótfallin að hér verði lögum breytt í þá átt að sala á áfengi verði heimil í matvöruverslunum. Hv. þingmaður sagði að frumvarpið væri ekki til þess fallið að valda neinum kollsteypum og var þá meðal annars að tala um hvað varðar neysluna með þessari breytingu á aðgenginu. Ég er því algjörlega ósammála og vil því spyrja hv. þingmann hvað það er sem er svo sérstakt við íslenskt samfélag samanborið við þær fjölmörgu erlendu rannsóknir sem landlæknisembættið tók saman og sendi okkur þingmönnum. Hvað er það í öllum þeim rannsóknum sem gerir það að verkum að ekki er hægt að heimfæra þær upp á íslenskt samfélag? Í hverju liggur munurinn á íslensku samfélagi og öðrum vestrænum samfélögum, því að í fjölmörgum þessara rannsókna er einmitt verið að benda á að sölufyrirkomulagið og þáttur aðgengisins skiptir gríðarlega miklu máli? Þetta er fyrri spurning mín til hv. þingmanns.

Svo langar mig að spyrja út í ályktun flokksþings Framsóknarflokksins frá árinu 2015 þar sem fram kemur að (Forseti hringir.) Framsóknarflokkurinn telur að byggja eigi á faglegum og vísindalegum niðurstöðum í lýðheilsumálum og hafnar því að áfengi sé selt í matvöruverslunum. Er hv. þingmaður ósammála flokksþingi síns eigin flokks?