145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[13:59]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir spurningar hennar. Ég ætla að koma fyrst að þeirri spurningu sem snýr að ályktun flokksþings Framsóknarflokksins. Það er sannarlega rétt sem hv. þingmaður kom inn á að þessi ályktun er til, en ég er í þessu máli ósammála svona flestum í okkar flokki. Það verður bara að segjast eins og er. Það er í einhverjum málum sem ákveðin breidd er í okkar flokki og kannski meira umburðarlyndi fyrir andstæðum sjónarmiðum. Þetta er eitt af þeim málum, ég gæti nefnt önnur mál, en það er ekki viðfangsefnið okkar núna hér. Ég nýt ekki sérstaks umburðarlyndis þegar kemur að því að vera þessarar skoðunar þegar kemur að lýðheilsu. Hafandi starfað sem kennari og þjálfari í fjöldamörg ár þá finn ég auðvitað fyrir því, fólki sem kemur að máli við mig er almennt ekki sama og spyr hvernig standi á því að þjálfarinn geti verið hliðhollur því að breyta þessu sölufyrirkomulagi. Ég sagði í ræðu áðan að ég teldi að við gætum stuðlað jafnt að lýðheilsu og náð fram sparnaði í ríkisrekstri. Það eina sem við í rauninni erum að breyta er að sá sem afhendir vöruna er á launaskrá hjá einkaaðila en ekki hjá ríkinu og skattgreiðendum. Það er í raun og veru eina breytingin. En það eru svo fjölmörg önnur atriði sem skipta máli og ég skal koma betur inn á það í seinna svari varðandi rannsóknir, hvað er sérstakt við íslenskt samfélag.