145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[14:02]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Svolítið kómísk staða kannski að vera í þeim sporum að taka heils hugar undir þennan bút í ályktun flokksþings Framsóknarflokksins á meðan hv. þingmaður, sem er þó þingmaður þess flokks, er henni ósammála, en svona geta málin stundum verið. Ég vil bara nefna það aftur hvað varðar lýðheilsumálin, þar er ég hreinlega ósammála hv. þingmanni að hægt sé að ná lýðheilsumarkmiðunum fram með öðrum hætti. Alla vega tel ég einföldustu leiðina til að vinna að þeim vera þá að hlusta á erlendar rannsóknir og að halda sölufyrirkomulaginu óbreyttu.

Það er annað, sem er talsvert annars eðlis, sem mig langar einnig að nefna við hv. þingmann. Þó svo fókusinn í þessari umræðu hafi vissulega verið á lýðheilsuþáttinn þá hafa fleiri sjónarhorn verið dregin inn í umræðuna og ég held að það sé mjög gott. Eitt af því sem hv. þingmaður nefndi er orðið frelsi og þá markaðsfrelsi. Nú er það svo að Ísland hefur upplifað mikla byltingu í rekstri smábrugghúsa síðasta áratuginn og ég held að það sé mjög gott, það hefur aukið fjölbreytileikann í íslensku atvinnulífi. Ég held hins vegar að ástæða sé til að hafa áhuga á þeim litlu framleiðendum ef frumvarpið verður samþykkt, því að ef þessi breyting fer í gegn þá mundu framleiðendurnir sjálfir (Forseti hringir.) þurfa að koma vörum sínum í verslanir. Við það ráða stóru brugghúsin, Ölgerðin og Vífilfell, en ég er hrædd um að litlu aðilarnir mundu hreinlega aldrei ráða við það. Ég vil gjarnan (Forseti hringir.) heyra sýn hv. þingmanns á það því að þetta er svo sannarlega partur af frelsi og viðskiptafrelsi.