145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[14:26]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmanni virðist renna það í skap að hér sé gerð aðgreining á einstaklingsfrelsi og verslunarfrelsi þó að það sé auðvitað alþekkt innan allrar fræðilegrar umræðu að á því er gerður ákveðinn greinarmunur. Mér finnst að hv. þingmaður þurfi að taka tillit til þess. Ég ræddi það einmitt í ræðu minni að mikilvægt væri að hv. þingmenn, við sem skipum hér löggjafann, hlustum á fagfólk. Ég nefndi nú einkum heilbrigðisstofnanir og þá aðila sem þar starfa innan heilbrigðisþjónustunnar í þeim efnum. En þegar við ræðum það að frelsi einstaklingsins sé höfuðrökin fyrir þessu máli þá finnst mér líka í góðu lagi að vitna til þeirra fræðimanna sem um þau hafa fjallað, sem benda einmitt á þennan greinarmun. Verslunarfrelsi getur haft áhrif á samfélagið allt og fyrir því eru gjarnan hagkvæmnisrök og góð rök. Það er í góðu lagi að mínu viti að við ræðum þau rök málefnalega. En ég tel þetta mál hins vegar ekki verða til þess, verði það að lögum, að auka einstaklingsfrelsi á Íslandi, ég færði fyrir því ákveðin rök. Við hv. þingmaður erum ósammála um það, en ég tel hins vegar ekki að hægt sé að kalla þann málflutning fráleitan eins og (Forseti hringir.) hv. þingmaður gerði.