145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[14:43]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að gleðjast með hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni yfir því að hann skuli ekki lengur þurfa að panta sér áfengi í póstkröfu í Grafarvoginum.

Það hefur margt athyglisvert komið fram í þessari umræðu í dag. Menn tala enn um að aðgengi stýri ekki neyslu. Það er einfaldlega rangt. Ef menn horfa yfir Austurvöll kemur í ljós að aukið aðgengi hefur aukið neyslu áfengis á Íslandi vegna þess að aukning neyslu áfengis frá 1988 til dags dato er sáralítil út úr vínbúðum ÁTVR samkvæmt upplýsingum landlæknis. Hún er mest á veitingastöðum sem hefur stórfjölgað hérna.

Það kom líka ágætisfullyrðing fram áðan um að neysla áfengis bitnaði einfaldlega á þeim sem drykkju en engum í kringum þá, ekki á þriðja aðila. Sú fullyrðing er röng. Mig langar að lesa hér mjög stutta grein úr umsögn Barnaheilla þar sem segir í bréfi til Alþingis frá 5. nóvember 2014, með leyfi hæstv. forseta:

„Sýnt hefur verið fram á með rannsóknum að aukið aðgengi að áfengi leiðir til aukinnar neyslu þess. Aukin áfengisneysla er líkleg til að hafa slæm áhrif á líf barna, ekki bara barna sem verða fyrir neikvæðum áhrifum af áfengisneyslu foreldra sinna eða forsjáraðila heldur líka barna og ungmenna sem freistast til áfengisdrykkju vegna auðveldara aðgengis.“

Það er alveg skýrt að neysla áfengis bitnar á þriðja aðila. Það segir til dæmis í ágætu tilskrifi frá embætti landlæknis, með leyfi forseta:

„Einstaklingar í Evrópu neyta að meðaltali tvöfalt meira af áfengi en meðaltal heimsins.

Skaðsemi af völdum áfengis er mikil í Evrópu, 10% af ótímabærum sjúkdómum til komið vegna áfengisneyslu, eitt af hverjum sjö ótímabærum dauðsföllum má rekja til áfengis hjá körlum og eitt af hverjum þrettán hjá konum.

Ísland, Svíþjóð, Noregur og Finnland hafa ströngustu löggjöfina í Evrópu varðandi sölu áfengis.

Jákvæð tengsl eru á milli strangrar áfengislöggjafar og minni áfengisneyslu.

Frjálsræði í sölu áfengis ýtir undir áfengisdrykkju og skaðsemi af völdum þess.“

Svo mörg voru þau orð.

Í skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar má sjá á landakorti hvernig neyslan skiptist. [Þingmaður sýnir skýrsluna.] Ég veit að þetta sést nú ekki mjög vel út í salinn en það má sjá hér á heimskorti þar sem dekkstu litirnir eru dæmi um hvar mesta neyslan er. Mesta neyslan er í Evrópu, sérstaklega austanverðri, í Norður-Ameríku og Kanada og í Vestur-Evrópu, þar með talið Danmörku. Ljósustu blettirnir í Evrópu, þ.e. minnsta neyslan á mann, er á Íslandi, í Svíþjóð, Finnlandi og Noregi. Hvað eiga þessi lönd sameiginlegt? Þar er áfengi selt á vegum hins opinbera.

Það kemur líka fram í þessari sömu skýrslu, á bls. 71, að þau ráð sem séu til til að minnka skaðsemi af völdum áfengisdrykkju séu einkum að gefa út leyfi til sölu áfengis og helst þannig að áfengissala sé á vegum opinberra aðila, að halda í lágmarki eða hafa eftirlit með fjölda og staðsetningu þeirra útsölustaða sem selja áfengi, að hafa reglu á fjölda söludaga og afgreiðslutíma, að hafa ákveðinn lágmarksaldur þeirra sem mega neyta áfengis og að setja reglur um áfengisdrykkju á opinberum stöðum. Þetta höfum við Íslendingar allt saman gert.

Ég verð að viðurkenna að mér rennur það til rifja að flutningsmenn þessa frumvarps, sem eru upp til hópa greindir og grandvarir menn, skuli geta horft fram hjá öllum þeim umsögnum sem hafa komið hér fram, sérstaklega frá heilbrigðisaðilum, sem vara okkur þingmenn við að samþykkja þetta frumvarp. Ég get ekki skilið það eftir allan þann lestur, frá landlækni, Læknafélagi Íslands, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga o.fl., að menn skuli samt ætla sér að samþykkja þetta frumvarp. Mér er það algerlega hulið.