145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[14:52]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir hreinskilnina í svörum. Hann talar fyrir því ástandi sem var hér áður. Reyndar man ég hvernig það ástand var og ég held að drykkjumenning okkar Íslendinga hafi ekki verið útflutningsvara. Ég held að enginn hafi komið hingað og sagt: Mikið er nú ástandið flott hjá þessari þjóð, við skulum taka það sama upp. En hv. þingmaður er bara heiðarlegur í því að segja að honum hafi fundist það ástand alveg stórkostlegt. Ég er honum bara ósammála í grundvallaratriðum.

Ég hvet hv. þingmann til að kynna sér hvaða árangri við höfum náð í forvörnum, hvaða aðferð við höfum beitt, sem kölluð er íslenska leiðin. Hér hefur verið mæld neysla á áfengi og tóbaki í áratugi og þar hefur einnig verið mælt sérstaklega hverjir mestu áhrifavaldarnir eru. Þeir eru nokkurn veginn í þessari röð: Það eru jafningjarnir, það eru foreldrarnir og einnig heilbrigð tómstundaiðkun. Það er svo sannarlega markmið að yngra fólkið fresti því að byrja að drekka. Yngra fólkið vill drekka áfengi. En ég þakka hv. þingmanni fyrir að hann kemur hreint fram og segir hver hans óskastaða er en ég hvet fólk til að skoða það hvernig ástandið var hér áður fyrr.