145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[14:55]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég verð svolítið ringlaður yfir málflutningi hv. þingmanns þegar kemur að talinu um aukna neyslu. Hv. þingmaður nefnir að samkvæmt upplýsingum landlæknis sé aukna neyslan fyrst og fremst vegna skemmtistaða eða veitingastaða, sem hefur vissulega fjölgað mjög mikið en það hefur útibúum ÁTVR einnig. Þarna sé ég ákveðna mótsögn í málflutningi hv. þingmanns. Ef það er ekki aukning vínbúða sem veldur aukinni neyslu heldur aukning veitingastaða væri þá ekki nærri lagi að berjast gegn opnun nýrra veitingastaða og leyfa þessari breytingu að ganga í gegn, vegna þess að samkvæmt þessum rökum og upplýsingum frá landlækni og ef ég skil hv. þingmann rétt eru það veitinga- og skemmtistaðirnir sem valda aukinni neyslu? Einnig langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki að þegar menn drekka sig ölvaða á skemmtistað sé miklu líklegra að það leiði til ofbeldis eða ölvunaraksturs en ef menn neyta áfengis heima hjá sér?

Nú veit ég mætavel að áfengi hefur áhrif á þriðja aðila og ef fyrri fullyrðingar mínar hafa verið á þá leið að áfengi geti ekki skaðað þriðja aðila tek ég þær til baka, ég er vissulega ekki þeirrar trúar. Þó hefur fólk minni ástæðu til að keyra ölvað heiman frá sér og heim til sín en á skemmtistað og heim til sín. Það er ólíklegra til að lenda í áflogum við aðra sem líka eru ölvaðir o.s.frv. En ef aukin neysla er afleiðing veitinga- og skemmtistaða sér hv. þingmaður þá ekki fyrir sér að við ættum að setja takmarkanir á veitinga- og skemmtistaði, fækka þeim jafnvel, gera þeim erfiðara fyrir að starfa eða því um líkt?