145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[15:04]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Jú, við deilum áhyggjum af því að unga fólkið okkar er að fara út í önnur efni en áfengi, það er rétt. Árangurinn sem náðist í unglingadrykkju er í grunninn kominn fram út af verkefni sem var tekið upp fyrir nokkrum árum og kallað Fíkniefnalaust Ísland árið 2000 og hefur orðið mörgum að aðhlátursefni seinna meir. Það breytti því ekki að árið 1998 eða þar um kring vorum við með ofboðslega unglingadrykkju og mikla neyslu kannabisefna meðal ungmenna. Foreldravaktin sem þá fór í gang, foreldraröltið, forvarnirnar — við búum enn að þeim vegna þess að þær eru enn í sama farvegi og þær voru á þessum árum. Þess vegna höldum við okkar striki enn þá hvað varðar unglingadrykkju.

Það liggur fyrir, samkvæmt öllum fáanlegum rannsóknum, að þessi aukning á sölustöðum mun fyrst og fremst verða til þess að glepja ungt fólk og konur og mig hryllir við þeirri staðreynd að við viljum offra þeim árangri sem við höfum náð.

Hvað varðar úrvalið þá er ég hjartanlega sammála hv. þingmanni. Ég sagði hér í fyrri ræðu minni að ef þetta frumvarp yrði að lögum værum við að skipta úr einkasölu í fákeppnissölu og það er næsta víst að þeir sem ráða öllu á matvörumarkaði verða býsna fljótir að straumlínulaga úrvalið hjá sér, sér til hagsbóta en ekki neytendum. Það að afhenda þessum aðilum 25 milljarða veltu á ári mun verða til þess að þeir munu ganga milli bols og höfuðs á samkeppninni sem eru örfáir smákaupmenn.