145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[15:25]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Menn tala hér eðlilega mikið gegn ofneyslu áfengis.

Virðulegi forseti. Ef við skoðum til dæmis tölur varðandi ofbeldisbrot og annað slíkt þá er ekki hægt að sjá neina fylgni milli þess hvort áfengisverslunum hefur fjölgað og ofbeldisbrot aukist ef farið er inn á vef ríkislögreglustjóra. Við sjáum hins vegar að fíkniefnabrot eru að aukast gríðarlega. Aðgengi að fíkniefnum er bannað á Íslandi. Hvernig getur hv. þingmaður útskýrt það? Þar erum við með þessa draumastöðu. Menn eru alveg sammála um að fíkniefni eru skaðleg og við bönnum þau, en fíkniefnabrotum fjölgar. Reyndar hefur áfengisdrykkja unglinga minnkað mjög mikið á undanförnum árum, sem betur fer, en á sama tíma hefur útsölustöðum ÁTVR verið fjölgað.