145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[15:27]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð nú að viðurkenna að ég þarf aðeins að melta þetta svar hv. þingmanns. Mér finnst hv. þingmaður tala um að það eigi að lögleiða fíkniefni, hann segir alla vega að við þurfum að skoða það. (Gripið fram í.) Hann getur kannski útskýrt það aðeins betur.

Það sem ég er að segja er einfaldlega þetta: Við getum verið fullkomlega sammála um að við viljum ekki unglingadrykkju, við viljum ekki ofneyslu áfengis.

Hv. þingmaður fór aðeins yfir það hvernig þetta var hér áður þegar við virkilega skertum aðgengi að áfengi, en það var ekki vandamál þá að nálgast áfengi. Það var svo sannarlega ekki þannig, virðulegi forseti, að áfengismenning okkar væri til fyrirmyndar þegar við fórum nákvæmlega eftir þeirri hugmyndafræði að skerða aðgengið. Það er langur vegur frá.

Nú er það bara þannig, virðulegi forseti, að Íslendingar fara eftirlitslaust til annarra landa, þeim er hleypt til annarra landa. Þar geta þeir umgengist þetta með allt öðrum hætti. Þar er áfengi meðal annars í matvöruverslunum. (Forseti hringir.) Við getum hins vegar algjörlega ráðið þessu, eins og margoft hefur komið fram, (Forseti hringir.) og þess vegna bara leyft að áfengi sé selt í viðkomandi verslun tvo tíma á dag, ef við viljum, ef við trúum því að það beri árangur. En röksemdafærslan (Forseti hringir.) hjá hv. þingmanni stenst ekki.