145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[15:31]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög góða ræðu. Hann hefur mikla þekkingu á þessum málum. Mig langar aðeins að koma inn á það sem snýr að börnum og afleiðingum aukinnar áfengisneyslu foreldra í kjölfar aukins aðgengis að áfengi. Ég er hérna með umsögn umboðsmanns barna í þeim efnum sem nefnir ýmis neikvæð áhrif á líf barna sem aukin neysla áfengis hefur; líkurnar á vanrækslu, ofbeldi, slysum, umferðarslysum og öðrum slysum, þetta eru þau neikvæðu áhrif sem áfengi hefur á líkamlega og andlega heilsu fólks og getur valdið sjúkdómum. Nú hefur verið talað um, og ég vitna aftur í Kára Stefánsson lækni í morgunútvarpinu á RÚV, að gífurlega miklu máli skipti að ná að halda ungu fólki frá áfengi fram yfir tvítugt til að minnka líkurnar á að viðkomandi (Forseti hringir.) verði áfengi að bráð eða verði alkóhólisti. Mig langar að heyra viðhorf hv. þingmanns þess.