145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[15:35]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Forseti. Já, ég held að það segi sig sjálft. Það mundi ekki líða á löngu þangað til þrýstingur frá stóru verslununum á fá að auglýsa áfengi mundi aukast. Nú er það reyndar þannig að við höfum aðgang að auglýsingum, t.d. í erlendum tímaritum og annars staðar, og það er verið að auglýsa áfengi hér nú þegar, það er bara talað um léttöl í staðinn fyrir bjór og þannig farið fram hjá þessum reglum. Þetta eru gríðarlega sterkir aðilar sem hafa einhver tök á samfélaginu sem mundi gera það að verkum að ekki liði langur tími þangað til hér kæmi frumvarp um frjálsa auglýsingu á áfengi. Ég verð að passa mig á því hvað ég segi hérna, svo að ég sé ekki að saka menn um eitthvað, en ég segi það að stjórnmálamenn eiga fyrst og fremst að hafa almannaheill í huga þegar þeir semja frumvörp og hvort það er til góða fyrir þjóðina og láta ekki eitthvað annað hafa áhrif á sig.