145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[15:44]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að aðgengi að léttu víni sé bara alveg fínt á Íslandi. Ég hef ekki orðið var við neitt annað. Fólk sem ég þekki á ekki í neinum vandræðum með að kaupa sér hvítvín og rauðvín úti í búð í áfengisversluninni sem er til dæmis rétt hjá mér. Ég held að við þurfum ekkert að gera til að auka aðgengi að því, bara ekki neitt. Ég held að við þurfum aftur á móti að gera eitthvað meira til þess að minnka drykkju. Það er mín skoðun.

En ég hef hingað til verið sáttur við fyrirkomulagið eins og það er vegna þess að fólk hefur ekki verið að kalla eftir einu eða neinu meira. Þetta hefur ekkert verið í umræðunni. Ríkisstjórnin lagði aldrei upp með það í stefnuyfirlýsingu sinni að hún ætlaði að gefa þetta frjálst en aftur á móti auka lýðheilsumál og forvarnir og takmarka aðgengi að áfengi. Það stendur skýrum stöfum í áfengisstefnu ríkisstjórnarinnar sem hæstv. heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, sjálfstæðismaður, lagði fram. Ég verð bara að viðurkenna það að ég kem af fjöllum í þessu máli.