145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[15:53]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég man ekki eftir því úr umsögnum að það væri einhver aðili sem ynni að heilbrigðismálum, æskulýðsmálum eða þar megin línunnar sem mælti með því að frumvarpið yrði að lögum. Aftur á móti vísuðu allir þessir aðilar, t.d. Barnaheill, landlæknisembættið, umboðsmaður barna o.fl., til alþjóðlegra rannsókna sem benda til þess að aukið aðgengi leiði til aukinnar neyslu og að mjög sterkt samband sé milli aukinnar neyslu og ýmissa félagslegra vandamála. Starfs míns vegna og hugsana minna vegna eru þetta þættir sem ég horfi verulega í við málið. Aðrir geta verið ósammála mér og ég ósammála öðrum en þetta kom ekki fram í umsögnum þessara aðila.

Varðandi hvort verslunin muni sýna samfélagslega ábyrgð eins og Vínbúðin gerir veit ég ekki, ég verð að segja alveg eins og er. Við verðum að horfa til þess að Vínbúðin stendur mjög framarlega í þessum málum. Þar gera menn sér grein fyrir hvers lags vöru þeir eru að selja, að ekki sé um að ræða neina venjulega neysluvöru og því sé mjög mikilvægt að standa framarlega á þessu sviði. Ég veit ekki hvað verður innan verslunarinnar en mér finnst mjög mikilvægt að horfa til þeirra rannsókna sem æskulýðsfélög, heilbrigðisaðilar, landlæknir og fleiri benda á varðandi fylgni á milli aukins aðgengis og aukinnar neyslu.

Ég náði ekki síðustu spurningunni, ég verð að viðurkenna það.