145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[15:57]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þarna kemur hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir algjörlega inn á einn þátt sem ég horfi verulega til er varðar þetta mál. Það voru fréttir í sumar af því að leyfa ætti sölu á bjór í einhverjum af sjoppunum á leiðinni frá Reykjavík að Landeyjahöfn. Verslunarmenn töluðu um að það ætti ekki að selja ökumanninum bjór en ég skil ekki hvernig það átti að hafa eftirlit með því. Það er ekkert mál að keyra bílinn eitthvert. Ástæðan fyrir því að ég er að hugsa svona er sú að við sjáum allt of háar tölur um þá mörgu sem setjast undir stýri, búnir að neyta áfengis eða annarra vímuefna. Því miður er það svo. Ég er mjög hrædd um þetta, miðað við fjöldann og hörmulegar afleiðingar fyrir bæði þann sem veldur slysi og verður fyrir slysi og fjölskyldur viðkomandi, ef við aukum aðgengi. Rannsóknir benda til að aukið aðgengi leiði til aukinnar neyslu, sem landlæknir og fleiri hafa bent á. Ég hef verulega áhyggjur af því að við sjáum hærri tölur sem ég vil alls ekki. Ég trúi ekki öðru en að við getum sammælast um það einhvern daginn að við verðum að finna nýjar leiðir til þess að spyrna við aukinni tíðni áfengis- og vímuefnaaksturs.