145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:04]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hún spurði mig út í ölvunarakstur og aukið aðgengi ef áfengi færi inn í stórmarkaði. Við sjáum það í greinargerð með frumvarpinu að nú eru vínbúðirnar 49 talsins. En miðað við það dæmi sem gefið er upp í greinargerðinni með frumvarpinu, ef ég man rétt, þá verða þetta í kringum 120 verslanir. Mig minnir að það sé verið að tala um Haga og Kaupás eða alla vega Bónus, Krónuna, Samkaup og einhverja þannig aðila fyrir utan alla aðra. Þetta verða kannski um 200 aðilar þannig að aðgengi verður mjög mikið og aukið. Samkvæmt þeim rannsóknum sem ég hef vitnað í sem Barnaheill talar um, umboðsmaður barna og landlæknir og kemur einnig fram hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni þá er samhengi milli aukins aðgengis og aukinnar neyslu.

Ef við komum inn á ofbeldisþáttinn þá kemur það fram í umsögn landlæknis frá því að málið var til umræðu hér í fyrra að sterkt samband sé á milli aukinnar áfengisneyslu og heimilisofbeldis, vanrækslu barna og ofbeldis af öðru tagi. Mér finnst að maður geti ekki annað en horft til þessara rannsókna því að það eru mjög alvarlegir þættir í þeim. Mér finnst mjög ábyrgðarlaust ef ekki verður horft til þeirra þátta.